Kosningar 2021

\"\"

Rafbílasambandið sendi eftirfarandi spurningu á alla stjórnmálaflokkana:
\”Hvernig sér ykkar flokkur fyrir sér rafbílavæðingu á Íslandi?\”

Svör flokkuð eftir listabókstaf

\"\"

B – Framsóknarflokkurinn:

Viðhorf Framsóknar til rafbílavæðingar eru óhjákvæmilega tengd stefnu í samgöngumálum og innviðum sem þeim tengjast.  Punktarnir hér að neðan eru úr þeim áherslum.  Meginatriðið er að gera landið óháð jarðefnaeldsneyti með fjölþættum lausnum.

Framsókn leggur áherslu á stórátak í uppbyggingu innviða og fjárfestingu ríkisins í innviðum á komandi árum. Sérstök áhersla verði lögð á raforkumál, samgöngumannvirki og orkuskipti. Unnið verði að nýjum verkefnum og þeim flýtt sem þegar eru á áætlun. Framsókn vill að lífeyrissjóðirnir fái aukin tækifæri á því að fjárfesta í innviðauppbyggingu á vegum ríkisins og einnig verði leitað samstarfs við einkaaðila þar sem það á við.

Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum.

Framsókn vill að stjórnvöld hraði orkuskiptum með uppbygging nauðsynlegra innviða til orkuskipta. Horft er t.d. til raforku- og vetnisknúinna skipa sem krefst þess að slíkir innviðir séu við helstu hafnir landsins. Rafbílavæðing krefst einnig uppsetningar á hleðslustöðvum hringinn í kringum landið, svo tryggt sé að fólk geti ferðast um land allt á rafknúnum farartækjum með tryggum hætti.  Orkusjóður hefur veitt stuðning til slíkrar uppbyggingar og hún þarf að halda áfram.

\"\"

C – Viðreisn:

Viðreisn styður hraðari orkuskipti á Íslandi, m.a. í vegasamgöngum þar sem rafvæðing leikur lykilhlutverk. Til að hraða rafbílavæðingunni og orkuskiptum almennt á Íslandi mun Viðreisn beita grænum hvötum á borð við kolefnisgjöld, styðja endurgreiðslu virðisaukaskatts á rafbílum og á sama tíma tryggja nauðsynlega uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Það nær allt frá flutnings- og dreifikerfis raforku um allt land til hleðslustöðvanets fyrir rafbíla. Þá er mikilvægt að greiða götu uppbyggingar hleðslustöðva í heimahúsum og fjölbýlum. 

 – Sveinbjörn Finnsson, frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður 

\"\"

D – Sjálfstæðisflokkurinn:

Ein af kosningaáherslum flokksins varðar græna orkubylting, sem miðar að því að Ísland taki forystu í orkuskiptum með því að nýta græna innlenda orku.

„Loftslagsmál og orkumál verða ekki skilin að, enda eru orkuskiptin helsta framlag Íslands til umhverfismála. Staða Íslands í orkumálum er öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa.

Græna orkubyltingin kallar á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er í kjörstöðu til að framleiða. Efnahagslegur ávinningur af grænni orkubyltingu er mikill en árlega verja Íslendingar um 80-120 milljörðum króna í eldsneytiskaup frá útlöndum.

Það er raunhæft fyrir Ísland að skipta um orkugjafa í bílum, á sjó og í flugi. Þannig getum við notað okkar eigin grænu orku, sparað gjaldeyri og um leið skapað nýja, hugvitsdrifna atvinnugrein.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stigi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu með metnaðarfullum aðgerðum og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.“

 – Stefnan var samþykkt af sjálfstæðisfólki á flokksráðsfundi þann 28. ágúst 2021

\"\"

F – Flokkur fólksins

Innviðauppbygging fyrir þessa tækni er af mörgum talin skammt á veg komin. Margir rafbílaeigendur hafa bent á að skortur sé á hleðslustöðvum hringin í kringum landið og að það aftri hraðanum á rafbílavæðingunni. Við teljum mikilvægt að styðja við þá uppbyggingu til þess að greiða leiðina að orkuskiptum bílaflotans. Ljóst er að það þarf að skapa hvata til að stuðla að þessari uppbyggingu. Ríkisvaldið á ekki að taka einhliða ákvarðanir í tómarúmi án samráðs við hagsmunaaðila og fræðimenn og því teljum við nauðsynlegt að vera í góðu samstarfi við samtök, eins og ykkar, og sérfræðinga til þess að leysa verkefni framtíðarinnar. Það er í okkar huga farsælast að lausnir felist í samtali allra er málið varðar.

Okkar stærstu áhyggjur af rafbílavæðingu Íslands eru þó þær að of strangar reglur og kvaðir af hálfu ríkisvaldsins, til þess að stuðla að hröðum skiptum, muni bitna á launalágu fólki og fólki sem getur ekki unnið fyrir sér. Allar aðgerðir í þessum málum verður að skoða með það í huga því að sá hópur fólks er oft skilinn eftir með sárt ennið og það er sá hópur fólks sem er okkur efst í huga við alla ákvörðunartöku. Uppbygging rafbílaflotans verður klárlega hraðari ef öllum er gert kleyft að eiga þátt í þessari þróun og uppbygginu.

 – Fyrir hönd Flokks fólksins, Rúnar Sigurjónsson

\"\"

J – Sósíalistaflokkur Íslands:

Við viljum halda taktinu í orkuskiptum og nýskráningum rafbíla og vera áfram í 1-2 öðru sæti með Noregi. Við teljum leiðina til þess vera að auka álögur á tengiltvinnbíla og hraða banni við ICE bifreiðum. Við viljum fella niður afslátt í formi VSK en tryggja að nýskráningin haldi áfram með áðurnefndum auknum álögum við nýskráningu á bifreiðum sem menga. Það eru margir sleðar og stjórntæki í þessu … Sósíalistar munu ekki hægja á orkuskiptum, en við erum með aðrar áherslur en aðrir.

Sjá tilboð:

https://sosialistaflokkurinn.is/2021/08/24/kerfisbreytingar-ekki-loftslagsbreytingar/

 

Sjá kafla:

Vistspor Íslendinga er með því mesta sem þekkist í veröldinni. Til dæmis losar hver Íslendingur að meðaltali 40,9 tonn af gróðurhúsalofttegundum, en í Svíþjóð er samsvarandi tala aðeins 1,8 tonn. Í hvert skipti sem áformað er að draga úr þessari losun eru hagsmunir auðvalds og sérhagsmuna settir í fyrsta sæti þannig að öll umbreyting gerist á þeirra forsendum, á þeirra hraða og að þeirra skapi.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum lagt mesta áherslu á að draga úr losun á vegum með því að gefa afslætti af nýjum rafbílum og bíða eftir að bílaflotinn velti í gegnum hátekjuheimilin, inn á markað notaðra bíla og til allra heimila landsins á um 20-25 árum. Afslátturinn sem rennur að mestu til hátekjuhópa hleypur á milljörðum á ári hverju. Lágtekjuhópar eru á sama tíma látnir halda áfram að borga á dælunni háar álögur sem er ætlað að standa undir einum mikilvægustu innviðum samfélagsins, vegakerfinu. Þessa skekkju þarf að leiðrétta með því að auka aftur til muna þátttöku hátekjuhópa í uppbyggingu samfélagslegra innviða og nota aðrar leiðir endurnýjunar bílaflotans sem nýtast einkum þeim þjóðfélagshópum sem þurfa til þess stuðning. Þetta má gera með rausnarlegri stuðningi við almenningssamgöngur sem eru lausar við losun og með því að styrkja hin tekjulægstu beint til að kaupa, leigja eða nota farartæki sem ganga fyrir grænni orku.

Aðgerðir í loftslagsmálum verða að vera samfélagslega réttlátar. Það felst í því að byrjað er meðal hinna tekjulægstu, ekki með styrkjum til hinna tekjuhæstu.

Vegasamgöngur eru um þriðjungur af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda. Sósíalistar vilja auka þátttöku fyrirtækja í orkuskiptum. Floti bílaleigu- og leigubíla á að vera eyrnamerktur með sérstökum kvöðum um stífari endurnýjun og úreldingu. Sama á við um hópakstur, rútur, almenningssamgöngur og snattakstur á vegum fyrirtækja.

 – Jökull Sólberg

\"\"

M – Miðflokkurinn:

Spár gera ráð fyrir að rafmagnsbílar verði um helmingur bílaflotans innan 10 ára. Augljóslega eru Íslendingar sér á báti þegar kemur að rafmagnsbílum og eru ásamt Norðmönnum í einstakri aðstöðu til að innleiða enda hafa báðar þjóðirnar tekið forystu á þessu sviði með sitt umhverfisvæna rafmagn. Fleiri og fleiri bílaframleiðendur eru að hefja framleiðslu rafmagnsbíla og við blasir að þeir eru að taka afgerandi forystu í orkuskiptum. Rafmagnsbíllinn virðist þannig ætla að verða helsti valkosturinn við bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og hefur forsendur til að taka yfir markaðinn. Rafmagnsbílar hafa notið skattfríðinda til þess en gera má ráð fyrir því að það geti breyst. Miðflokkurinn styður skynsamar aðgerðir til orkuskipta í bílaflota landsmanna og rafmagnsbíllinn verður þar augljóslega í lykilstöðu.

 – Jón Pétursson, aðstoðarmaður formanns Miðflokksins

\"\"

O – Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn:

Þar sem nýjar reglur Evrópusambandsins koma til með að banna sölu á nýjum bensín og dísel bílum árið 2035 verða Íslendingar að bretta upp ermarnar  og  breyta yfir í rafmagnsbíla í mun hraðar en stjórnvöld ætluðu sér. Breytingarnar verða mun fyrr og það er eftir engu að bíða. Algjöra nýliðun í flota bílaleiganna ætti að setja strax í gang og leigja eingöngu út nýorkubíla. Stóriðjunni og Landsvirkjun verði gert að kolefnisjafna alla framleiðslu sína. Sölu á kolefniskvóta verði hætt eða svokölluðum mengunar aflátsbréfum til erlendra og innlendra fyrirtækja og þjóðin fái að njóta sannmælis í erlendum samanburði í loftslags umræðunni.

\"\"

P – Píratar:

Rafbílavæðing og önnur orkuskipti í samgöngum eru hluti af loftslagsstefnu Pírata, sem Ungir umhverfissinnar veittu hæstu einkunn allra flokka á dögunum. Öll stefna Pírata fyrir komandi kosningar hvílir raunar á grænum grunni. Það á ekki síst við um efnahags- og skattastefnu Pírata sem miðar öll að því að hlífa litla manninum við þungum byrðum og verðlauna það sem er grænt. Þannig auðveldum við öllu fólki að taka þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það eru réttlátu umskiptin sem við þurfum.

 

Í fyrrnefndri loftslagsstefnu segir m.a.:

3.7. Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti fari stighækkandi og endurspegli raunverulegan kostnað samfélagsins og umhverfisins af mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Gjaldinu verði varið í þágu almennings, t.d. til verkefna sem auðvelda orkuskipti í samgöngum og styðja við uppbyggingu innviða fyrir ferðamáta sem ekki eru háðir jarðefnaeldsneyti.

3.8. Flýtum sölubanni á nýjum farartækjum sem nota jarðefnaeldsneyti til 2025.

3.9. Eflum innviði fyrir orkuskipti í samgöngum, rafknúin og vistvænni farartæki af fjölbreyttu tagi og sköpum hvata til að auðvelda fólki að nýta sér þau.

Nánari upplýsingar er að finna í fyrrnefndum stefnum, ekki síst loftslagsstefnu Pírata: https://piratar.is/frettir/loftslagsstefna-pirata/

 – Stefán Óli Jónsson, starfsmaður Pírata

\"\"

S – Samfylkingin:

Fyrir kosningar kynnti Samfylkingin 50 aðgerðir í loftslagsmálum, þar á meðal aðgerðir sem stuðla að rafbílavæðingu.

Við viljum gera tímasettar áætlanir um hraðari orkuskipti í samgöngum hvort sem litið er til einkabifreiða, fyrirtækjaflota, atvinnubifreiða, vöruflutningabifreiða, vinnutækja eða fólksflutningabíl.

Við viljum vinna að rafvæðingu bílaleiguflotans með skattalegum hvötum, fjölgun hleðsluinnviða á gististöðum og helstu ferðamannastöðum og kröfum um að bílaleigur auki hlutfall hreinorkubíla og bjóði þá sem fyrsta valkost.

Í samþykktri stefnu okkar segir: „Samfylkingin vill styðja við uppbyggingu rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land svo raunhæft verði að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025. Einnig er brýnt að mótuð verði raunhæf en metnaðarfull áætlun um að hætta nýskráningu flutningabíla, hópferðabíla og vinnuvéla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti. Loks þarf að innleiða hvata og/eða kvaðir sem tryggja að bílaleigur leigi í auknum mæli út hreinorkubíla í stað bensín og dísilbíla. Samhliða þessu þarf að styrkja flutnings- og dreifikerfi rafmagns svo að kerfið geti staðið undir auknu álagi vegna orkuskiptanna.“

 – Sólveig Skaftadóttir, aðstoðarmaður þingflokks Samfylkingarinnar

\"\"

V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að leggja skuli áherslu á fjölbreytta samgöngumáta, þ.m.t. göngu- og hjólastíga. Tryggja þarf orkuskipti í almenningssamgöngum samhliða eflingu

þeirra. Græn tenging milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar verði eitt af forgangsmálunum. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu. Efla þarf almenningssamgöngur um land allt og gera þær að raunhæfum valkosti. Ísland þarf að sýna forystu og frumkvæði í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með tímasettri áætlun um orkuskipti í samgöngum, þungaflutningum, – sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði með það að markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2045. Orkuskipti, þar með talið orkuskipti í samgöngum og rafbílavæðingin sem þeim fylgir, verða að vera réttlát svo þau komi ekki verr niður á þeim sem minnst hafa milli handanna.

 – Hulda Hólmkelsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna