Það er einfalt að hlaða rafbíl. Á hraðhleðslustöðvum á Íslandi er hægt að hlaða alla rafbíla. Á hraðhleðslustöðvum eru almennt 3 tengi, type 2, Chademo og CCS. Chademo og CCS tengin eru hraðhleðslutengi þar almennt fæst um 100 kílómetra drægni á u.þ.b. 20 mínútum. Type 2 er hæghleðslutengi þar sem það tekur almennt 2-4 klukkutíma að hlaða 100 kílómetra drægi. Chademo tengið er notað fyrir Nissan Leaf, Kia Soul. Tesla getur einnig notað Chademo með sérstöku Tesla Chademo millistykki. CCS tengið er notað fyrir aðra rafbíla, t.d. VW e-golf, BMW i3, Hyundai Ioniq og fleiri.  Undantekningin er Renault Zoe sem er ekki með hraðhleðslutengi, heldur eingöngu type 2 tengi, en á því tengi getur hann hlaðið 100 kílómetra drægni á u.þ.b. klukkustund.

ON hraðhleðslur

Langflestar hraðhleðslustöðvar landsins eru reknar af Orku Náttúrunnar. ON rekur tvær tegundir af hraðhleðslum, DBT og ABB. Myndböndin hér að neðan sýna hvernig hleðsla fer fram á þessum tveimur hraðhleðslum. Nauðsynlegt er að hafa ON lykilinn til að hlaða á ON hraðhleðslum. Tekið er gjald á ON hraðhleðslum frá 1. febrúar 2018, sem er 700-1000 krónur fyrir 100 kílómetra drægi fyrir langflesta rafbíla. Hægt er að sjá staðsetningu og ástand ON hlaðanna í ON appinu og einnig í Plugshare appinu. Mikið af hagnýtum upplýsingum um hleðslustöðvar og rafbíla er að finna á heimasíðu ON.

Ókeypis hraðhleðslur

ON tekur gjald á sínum hraðhleðslum en þó eru nokkrar hleðslur sem eru gjaldfrjálsar. Þar má nefna hraðhleðslu í bílakjallara Garðatorgs í Garðabæ, hraðhleðslu Ísorku í Firði Hafnarfirði og hraðhleðsla ON við Ikea. Upplýsingar um þessar stöðvar eru aðgengilegar á korti PlugShare

Stoppustuð hleðslur og Ísorka hleðslur

Stoppustuð og Ísorku hleðslur eru hleðslur með type 2 tengi. Til að hlaða á slíkum hleðslum þarf að hafa hleðslusnúru í bílnum sem hægt er að stinga í slíkt tengi. Renault Zoe getur hlaðið 100 kílómetra drægi á um klukkustund á slíkri hleðslustöð. Aðrir rafbílar hlaða almennt 100 kílómetra drægi á 2-4 klukkutímum. Hægt er að sjá staðsetningu stoppustuða bæði í Ísorku appinu og plugshare appinu. Það er hægt að hlaða endurgjaldslaust á stoppistuð hleðslunum og mörgum Ísorku hleðslum en í Ísorku appinu er einnig upplýsingar um verð.

Aðrar hleðslustöðvar

Ýmsar hæghleðslustöðvar eru við stofnanir og fyrirtæki sem eru opnar fyrir almenning og eru gjaldfrjálsar. Þær eru flestar skráðar á PlugShare kortinu. Sumar þeirra hafa þó minni hleðsluhraða en Stoppustuð og Ísorku hleðslurnar. T.d. er mikið af hæghleðslum hjá Ikea í Garðabæ, en á þeim tekur uþb. 4-8 klukkutíma að hlaða 100 kílómetra drægni.