Til að fá sem mest fyrir peninginn þegar hlaðið er í hraðhleðslustöðvum þar sem bæði er tekið gjald fyrir orkuna og fyrir tímann borgar sig að hafa nokkur atriði í huga.
Ekki hraðhlaða kalda rafhlöðu
Rafhlaðan tekur best við í kringum 25°C, það er því hagkvæmast á Íslandi, þar sem útihitastigið er sjaldan á því róli, að hlaða í lok ferðar á meðan rafhlaðan er enn volg af notkun. Ef rafhlaðan er köld tekur hún ekki eins hratt við og ef hún væri við kjörhitastig og því er betra að hlaða þegar komið er á áfangastað heldur en áður en lagt er af stað. Kaldur bíll getur þar að auki notað þó nokkuð mikið rafmagn til að hita rafhlöðuna í upphafi. Á sumrin er munurinn minni. Fyrir þá sem eiga þess ekki kost að hlaða heima hjá sér og nota hraðhleðslu fyrir daglegan akstur borgar sig frekar að hlaða seinnipart dags strax eftir akstur dagsins til að rafhlaðan sé eins nálægt kjörhitastigi og hún verður við slíka notkun. Að hlaða á morgnana þýðir að rafhlaðan er hrollköld eftir nóttina og þarf þá að nota mikið að orkunni til að hita sig ásamt því að taka illa við. Eftir því sem rafhlaðan hitnar ætti samt hleðsluhraðinn að aukast.Ef hægt er að láta rafhlöðuna hita sig fyrir hleðslu þá er tilvalið að nota þann möguleika.
Ekki hraðhlaða nærri fulla rafhlöðu
Rafhlaða með lága stöðu tekur hraðar við heldur en nærri full. Það tekur styttri tíma að hlaða frá 10% upp í 50% heldur en frá 40% upp í 80% og hvað þá úr 60% í 100%. Því næst meira drægi með því að stoppa tvisvar á leiðinni og hlaða í 10 mín á hvorum stað heldur en einu sinni í 20 mín. Þumalputtareglan er sú að það tekur álíka langan tíma að hlaða hver 80% af rýmd rafhlöðunnar, þ.e.a.s. að frá 0-80% taki svipaðan tíma og frá 80-96% og álíka tíma og frá 96%-99%. Gildir ekki um alla bíla á götunum en nógu marga til að kallast þumalputtaregla.
Ekki liggja of lengi í hraðhleðslu
Þetta tengist liðnum hér að ofan að því leyti að orkan sem þú færð á hverri mínútu minnkar eftir því sem nær dregur fullum bíl. Ef þú þarft að hlaða í meira en 80% og hefur möguleika á bæði hraðhleðslu og hæghleðslu getur verið gott að hraðhlaða í 70-80% og skipta þá í hæghleðsluna og gera eitthvað skemmtilegt á meðan beðið er eftir síðustu prósentunum sem þú þarft. Vegna þess að rafhlaðan tekur hraðar við í byrjun er alltaf betra að hraðhlaða fyrst og færa bílinn í hæghleðslu en ekki öfugt. Þannig hleypirðu líka fleirum að og á sama tíma sparar þér einhverjar krónur.Ef við tökum dæmi um stæðið við IKEA þar eru mörg hæghleðslustæði og ein hraðhleðsla, sniðugt er að hraðhlaða í upp í 60-70%, færa svo bílinn í hæghleðslustæði og fara inn til að versla og/eða borða.